Formaður ungliðahreyfingar Frjálslynda flokksins handtekinn í bílstjóramótmælunum
Formaður Landssambands ungra frjálslyndra, ungliðasamtaka Frjálslynda flokksins, Viðar Helgi Guðjohnsen, var einn þeirra 21 sem lögreglan handtók í aðgerðum sínum gegn mótmælum vörubílstjóra við Olísstöðina í Norðlingaholti á miðvikudaginn var. Viðar lýsti handtökunni og hefur fjallað um mótmælin og aðgerðir lögreglunnar á bloggsíðu sinni undanfarna daga.
Hann segist hafa farið á Olísstöðina með föður sínum til þess að sína samstöðu með vörubílstjórunum og mótmæla. Ég hafði heyrt fréttir af því að lögreglan væri farin að beita ofbeldi til þess að stöðva mótmæli trukkabílstjórana. Við mættum á svæðið og förum strax inn í mótmælendahópinn sem var langt fyrir utan lögregluborðann.
Á þessu myndbandi sjást feðgarnir hrópa að lögreglunni, Viðar Helgi í svartri úlpu en faðir hans í grænni flíspeysu.
Lýsing Viðars Helga á því sem gerðist er eftirfarandi: Upp úr þurru koma sérsveitarmennirnir með skildina sína og kylfurnar sínar í beinni línu... Það átti greinilega að hrekja okkur í burtu með valdi. Einhver hrópaði ,,læsum höndum saman og við mótmælendurnir læstum saman höndum og mynduðum varnarvegg. Varnarveggurinn hélt allt þar til lögreglan sprautaði táragasi inn í saklausan hópinn.
Atburðarrásin varð þá hröð og ég sá nokkra sérsveitarmenn vopnaða kylfum standa yfir föður mínum sem lá í jörðinni og reyndi ég mitt besta að koma honum til hjálpar en þá veittust að mér þrír sérsveitarmenn, drógu mig afsíðis og handjárnuðu mig. Svo var ég tekinn inn í lögreglubíl þar sem ókvæðisorðum var hreytt að mér og ég kallaður fæðingarhálfviti og ætti von á mikilli sekt.
Ég spurði lögreglumanninn hvort það væri nú saknæmt að mótmæla á bensínstöðvarplani... Hann gat engu svarað en talaði um stórhættuleg ólögleg mótmæli og spurði hvað ég gerði. Þegar ég svaraði honum að ég væri háskólanemi svaraði hann með ,,ég get ekki skilið hvernig þú getur verið í háskólanámi, þú ert það heimskur að þú ættir að vera í fiskvinnslu.
Í annarri bloggfærslu segir Viðar Helgi: Eftir valdbeitingu lögreglunnar í gær fóru mótmælin úr því að vera mótmæli bílstjóra og mótmæli þeirra sem vildu lækkað bensínverð. Nú snúast mótmælin um rétt almennings til mótmæla.
Við búum ekki í lögregluríki og við eigum aldrei að sætta okkur við að vera lamin til hlýðni.
Aðförin í gær gegn frelsinu var skipulögð, eins skipulögð og aðförin sem á núna að gera gegn bílstjórunum sem stóðu að mótmælunum. Það á að knésetja þá með sektum og málaferlum.
Um leið og stjórnvöld fara að knýja fram hlýðni með ofbeldi gegn borgurum sínum þá ber okkur að mótmæla.
Hvernig væri þetta annars ef auðmenn vildu afnema bensíntollinn eða afnema þennan hvíldartíma?
Auðmenn vildu fiskinn.Þeir fengu fiskinn. Auðmenn vildu Hitaveitu Suðurnesja og varnaliðseignirnar á gjafaverði. Þeir fengu Hitaveitu Suðurnesja og varnaliðseignirnar á gjafaverði. Auðmenn vildu fljótandi gjaldmiðil, banka og frjálst flæði peninga innan ESB. Þeir fengu fljótandi gjaldmiðil, bankana og frjálst flæði peninga innan ESB. Atvinnubílstjórar vilja nýta rétt sinn til mótmæla. Þeir fengu barsmíðar.
Svona fantaaðgerðir eru ekki gerðar nema með samþykki stjórnvalda. Gefumst aldrei upp í baráttunni, höldum áfram. Látum ekki berja okkur til hlýðni.
Í þessari frétt RÚV af atburðum miðvikudagsins sést hvar Viðar Helgi er leiddur burt hrópandi: Þeir eru að berja Íslendinga! Þeir eru að berja samlanda sína!
Í annarri færslu á bloggsíðu sinni segir Viðar Helgi: Stjórnarmenn landsins hafa verið að gera í því að stilla vörubílstjórum og lögreglunni upp sem óvinum til þess að einmitt svona uppþot eins og í gær gerist.
Það að stilla lögreglu og almenningi upp sem óvinum er algerlega óásættanlegt og vona ég að formálar þessa máls verði rannsakaðir því að versta sem gæti komið fyrir íslenskt samfélag er að ákveðnum hagsmunaaðilum takist að gera lögregluna og almenning að óvinum.
tekið af eyjan.is
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Já, þetta land er að verða með ólíkindum eins og kommúnistaríki.... Allt frá ritskoðun og í banni við mótæmlum. Má fólk semsé yfirleitt bara ekkert láta í sér heyra lengur...
Bryndís Böðvarsdóttir, 30.4.2008 kl. 14:44
mótæmlum... átti víst að vera: mótmælum.
Bryndís Böðvarsdóttir, 30.4.2008 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.