bragi afi

Bragi Skarphéðinsson járnsmiður fæddist í Reykjavík 24. nóvember 1933. Hann lést á Dvalar-og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 20. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jórunn Einarsdóttir, húsmóðir og iðnverkakona í Reykjavík, f. 23.2. 1905, d. 23.9. 1978, og Skarphéðinn Vémundsson, síðast verkamaður í Reykjavík, f. 19.8. 1911, d. 31.12. 1979. Bræður Braga eru Þráinn, f. 25.9. 1937, og Ómar, f. 20.8. 1949.

Bragi kvæntist árið 1956 Esther Brittu Vagnsdóttur, f. 10.8. 1936. Foreldrar hennar voru Laufey Hólm Sigurgarðsdóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 21.4. 1911, d. 2.5. 1988, og Vagn Egill Jónsson, hæstaréttarlögmaður, f. 5.7. 1914, d. 5.4. 1976. Bragi og Esther skildu 1982. Börn þeirra eru Egill Héðinn, f. 8.3. 1957, Skúli Þór, f. 13.5. 1959, og Snorri Ragnar, f. 25.12. 1963. Egill Héðinn og fyrrverandi kona hans, Anna Lára Þorsteinsdóttir, f. 28.7. 1956, eiga tvö börn, Ástu Laufeyju, f. 1.5. 1978, og Þorstein Marinó, f. 2.6. 1987. Síðari kona Egils er Wirat Ubasen, f. 31.3. 1965, þau eiga dótturina Chandraju, f. 19.9. 2005. Skúli er kvæntur Nuanchawee Wijannarong, f. 17.1. 1968, börn þeirra eru Ása María, f. 5.9. 1998, og Jasmín, f. 7.5. 2004. Skúli Þór á dóttur, Pascale Elísabet, f. 16.11. 1980, með fyrri konu sinni Doris David frá Máritíus, og son, Davíð Braga, f. 19.6. 1992, með Natalie Bragason. Dóttir Snorra og sambýliskonu hans Auðbjargar Maríu Ólafsdóttur, f. 12.12. 1971, er María Elísabet, f. 15. desember 2006. Snorri Ragnar á tvö börn með fyrri konu sinni, Margréti Jónínu Þorsteinsdóttur, f. 25.2. 1967. Það eru synirnir Daníel Ágúst, f. 25.6. 1989, og Snorri Ágúst, f. 23.12. 1990.

Bragi ólst upp í sveit í Fossvoginum þar sem foreldrar hans voru með búskap og síðar í Reykjavík. Hann gekk í Laugarnesskóla, en stundaði almenna verkamannavinnu eftir að skyldunámi lauk. Hann lærði járnsmíði í Vélsmiðjunni Héðni og Landssmiðjunni í Reykjavík, og lauk prófi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Bragi var einn af stofnendum Lúðrasveitar verkalýðsins og lék með lúðrasveitinni fyrstu árin sem hún starfaði. Árið 1964 gerðist hann verslunarmaður í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur og starfaði þar til ársins 1970 að hann fór aftur að stunda járnsmíði og þá hjá Norma hf. í Reykjavík. Vann hann m.a. við Þórisós og stækkun álversins í Straumsvík. Árið 1972 flutti fjölskyldan til Akureyrar. Þar réðst Bragi til Vélsmiðjunnar Odda hf., þar sem hann starfaði árum saman með hléum, en hann réðst tímabundið til Vélsmiðju Steindórs og til Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri. Frá 1975 til 1980 starfaði hann við vélgæslu á varaaflstöðvum á Oddeyri og við Rangárvelli, við stækkun Laxárvirkjunar og viðhald togara ÚA svo fátt eitt sé nefnt. Eftir það var hann hjá Hitaveitu Akureyrar til árins 1981 að hann flutti til Suðureyrar við Súgandafjörð ásamt sambýliskonu sinni Ingunni Sveinsdóttur frá Barðsnesi, f. 20.9. 1942. Þar var hann um tíma við iðn sína, en 1984 flutti hann til Norðfjarðar og bjó í Neskaupstað til árins 1996 að hann fór til Skúla sonar síns á Sauðárkróki. Árið 1999 flutti Bragi aftur til Akureyrar og bjó þar til dauðadags.

Bragi verður jarðsunginn frá Glerárkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30.


Pabbi ólst upp í Reykjavík á kreppuárunum þegar allur almenningur hafði úr litlu að spila. Sá tími var honum minnisstæður, og eins tími stríðsáranna. Þessir tímar mótuðu hann og lífsviðhorf hans að ýmsu leyti.

Pabbi var glaðvær og mikill tónlistarunnandi. Hann lærði ungur að árum að leika á tenórsaxafón hjá Vilhjálmi Guðjónssyni og einnig lék hann vel á harmoniku. Hann var einn af stofnendum Lúðrasveitar Verkalýðsins í Reykjavík þar sem hann lék á franskt horn. Hann var róttækur sósíalisti, félagi í Samtökum hernámsandstæðinga og í Sósíalistaflokknum, seinna Alþýðubandalaginu. Málefni verkalýðshreyfingarinnar og kjarabarátta ásamt frelsisbaráttu hinna vinnandi stétta voru honum hjartans mál. Hann mátti aldrei heyra á verkalýðshreyfinguna hallað einu orði. Hann var virkur félagi í stéttarfélagi málmiðnaðarmanna.

Árið 1954 fór hann með vini sínum Gísla Halldórssyni símvirkja til Noregs. Í Bergen réðu þeir sig á fornfálegt gufuskip sem hét Fulton. Skipið sigldi til Múrmansk að sækja timbur sem var flutt til Englands. Annar góður vinur pabba var Þórður Sigurel Kristjánsson, bifreiðastjóri og rennismiður. Ég man eftirminnilega ferð sem hann og Þórður fóru árið 1969 með Björgunarsveitinni Ingólfi í Húsafell og Veiðivötn, en pabbi var veiðimaður á stöng og hafði yndi af útiveru og veiðiskap.

Pabbi hóf flugnám í Reykjavík um 24 ára að aldri en varð að hætta þar sem hann stóðst ekki fyllilega kröfur um heyrn. Hann unni þó fluginu alla ævi og mat þá reynslu mikils að hafa flogið Piper Cup.

Á þeim árum sem hann starfaði hjá Hljóðfærahúsi Reykjavíkur eignaðist hann gott hljómplötusafn. Hann unni sígildri tónlist en hafði breiðan tónlistarsmekk. Eftir áralöng störf hjá Hljóðfærahúsinu sneri hann aftur að járniðninni. Á þessum árum var mikil vinna t.d. við Búrfellsvirkjun og Þórisós. Árið 1972 var ákveðið að flytja til Akureyrar, nánar tiltekið í Glerárþorp sem þá var svo nefnt. Þar tók við áframhaldandi vinna að járnsmíðum. Pabbi eignaðist járnsmíðaverkfæri, vélar og tæki sem hann hafði í bílskúrnum. Járnið lék í höndum hans og til urðu fínlegir hlutir með persónulegu yfirbragði. Fyrir utan bílskúrinn stóð Willys jeppinn guli, árgerð 1954, en um þann jeppa sagði pabbi síðar að hann væri eina ökutækið sem sér hefði þótt vænt um.

Árið 1982 ákvað pabbi að flytja vestur á firði, til Suðureyrar við Súgandafjörð. Þar bjó hann í nokkur ár, stafaði að járnsmíðum og svolítið að tónlistarkennslu við tónskóla staðarins. Þá lá leiðin austur á land, í Neskaupstað. Þar starfaði hann á vélaverkstæði Síldarvinnslunnar hf.

Heilsan fór að bila rétt þegar pabbi var um sextugt, hann greindist með Alzheimers sjúkdóm. Sem betur fer átti hann samt eftir mörg ágæt ár. Akureyringar tóku fjölskyldunni vel, og veit ég að það var pabba mikils virði og minntist hann oft á hversu heppin við hefðum verið að flytja einmitt þangað.

Af ótal mörgum minningum vil ég nefna kvöldin sem hann sat við að hlusta á sígilda tónlist, reykjandi pípuna sína, með bók eftir Hemingway eða aðra eftirlætishöfunda í hendi.Af íslenskum rithöfundum mat hann Halldór Laxnes mest, af ljóðskáldum Bólu-Hjálmar. Hann fann sér að ýmsu leyti sálufélaga í stórbrotnum persónum þeirra.

Ég vil þakka pabba fyrir allt, og kveðja hann hinstu kveðju.

Egill Héðinn Bragason.

mbl.is/minningar Í dag kveðjum við Braga bróður og mág hinstu kveðju. Nú er lokið baráttu hans við hinn erfiða sjúkdóm Alzheimer sem náði tökum á honum allt of snemma. Bragi var einstakt ljúfmenni og brosið hans bræddi allra hjörtu. Þrátt fyrir heilsubrest kvartaði hann ekki en reyndi frekar að gleðja samferðafólk sitt, margir muna hann sjálfsagt hlæjandi með pípuna í munnvikinu. Hann var hrekklaus maður og sérlega barngóður. Hann var stóri bróðir minn og ég leit alltaf upp til hans í æsku enda var hann mér góður og reyndist mér ávallt vel. Þegar við hjónin fluttum austur í Egilsstaði voru heimsóknir hans eftirminnilegar og börnin okkar löðuðust strax að honum og var hann frændinn sem var svo góður og skemmtilegur. Í síðustu heimsókn hans austur kynntist hann barnabörnunum okkar, en þá var sjúkdómurinn byrjaður að segja til sín. Þau skynjuðu það og fannst að þau yrðu að passa hann vel, sem þau og gerðu, og varð mikil vinátta milli þeirra.

Bragi var tónlistarmaður og mikill hagleikssmiður á járn.

Marga fallega gripi smíðaði hann úr járni og gaf vinum og vandamönnum, enda lærður járnsmiður og eldsmíðin heillaði hann.

Hann var einn af stofnendum Lúðrasveitar verkalýðsins og spilaði þar á saxófón og tenórhorn í árafjöld, oft var glatt á hjalla á æfingum og Bragi hrókur alls fagnaðar.

Veiði og útivera voru meðal áhugamála hans og fórum við marga veiðiferðina með æskuvinum og félögum í Reykjavík, var þá oftast tjaldað á vatns- eða árbakka og spjallað og grínast langt fram á ljósar sumarnætur svo veiðin gleymdist jafnvel. Við áttum líka margar eftirminnilegar samverustundir við Eiðavatn um hvítasunnu, þegar Bragi tíndi upp fisk á pínulítinn spinner þegar aðrir fengu ekki neitt, og hló dátt.

Síðustu ár voru erfið bæði fyrir Braga og aðstandendur því Alzheimersjúkdómurinn einangrar fólk svo það missir smám saman allt samband við umheiminn og getur ekki tjáð sig. Vel var hugsað um Braga á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri og starfsfólk þar á þakkir skildar fyrir frábæra umönnun.

Við minnumst Braga með söknuði en þökkum fyrir að hafa átt hann sem bróður og mág.

Sonum hans, Agli, Skúla og Snorra, barnabörnum og öðrum venslamönnum vottum við okkar innilegustu samúð. Minningin um Braga lifir í hjörtum okkar.

Þráinn og Gunnhildur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Þakka þér fyrir þessa fallegu grein um afa þinn. Ég samhryggist þér. Þú segir að hann hafi unnið í Hljóðfærahúsinu. Kannski hef ég talað við hann ´þegar ég var  lítil stúlka ég veit ekki. 'Att þú mynd? Elku Adda mín ég sendi þér innilegar samúðaróskir.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 20.11.2007 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband