2008-07-05
Læknavakt lokað á Suðurnesjum - Slasaðir og veikir þurfa til Reykjavíkur utan skrifstofutíma
Læknavakt Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verður lokað 16. júlí nk. vegna fjárhagsvandræða. Læknar verða ekki á vakt utan skrifstofutíma.
Haft er eftir Sigríði Snæbjörnsdóttur, forstjóra HSS á Vísir.is að sjúklingar sem þurfa þessa þjónustu eftir klukkan fjögur á daginn verði að leita til Reykjavíkur. Hún segir fjárveitingar HSS ekki vera í samræmi við fjárveitingar annarra heilbrigðisstofnana.
Læknir verður á neyðarvakt á HSS og mun sinna neyðartilvikum. Ef neyðartilfellli ber að höndum á að hringja strax í 112, sem hefur samband við lækni á neyðarvakt.
Í fréttatilkynningu sem HSS sendi frá sér í dag og birt er á Víkurfréttum segir:
Á fjárlögum árinu 2008 fékk Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.609.800.000 kr. eða 78.734 kr. á íbúa m.v. 20.446 íbúa. Þegar litið er á fjárveitingar til átta annarra sambærilegra stofnana m.v. íbúafjölda er þessi upphæð langlægst án frekari skýringa. Sú heilbrigðisstofnun sem næst kom fékk 101.013 kr. á íbúa og sú sem mest fékk, var með 200.976 kr. á íbúa. Vegna þessara erfiðleika í rekstri hefur á undanförnum mánuðum verið reynt að fá leiðréttingar á fjárveitingum hjá heilbrigðisráðuneytinu án árangurs.
Sérstaklega eru fjárveitingar lágar á heilsugæslusviði. Ef HSS fengi jafnháa fjárhæð og sú stofnun sem næstlægsta upphæð fær, ætti hún að fá 450.000.000 kr. í viðbót á árinu 2008.
Þessar upplýsingar voru formlega kynntar í heilbrigðisráðuneytinu í mars s.l. og síðan á fjölmörgum fundum til að freista þess að fá leiðréttingar þannig að HSS sæti a.m.k. við sama borð og sú stofnun sem næst minnst er úthlutað. Fullyrða má að HSS hefur verið að veita jafngóða þjónustu og samanburðarstofnanirnar fyrir 50-75% af því fjármagni sem þeim er úthlutað.
Ekki hefur tekist að fá leiðréttingu á þessari skekkju í fjárveitingum sem skapast m. a. af mikilli og örri íbúaaukningu á Suðurnesjum á undanförnum árum. HSS getur því ekki lengur haldið uppi lögbundinni og tilskilinni starfsemi og verður að bregðast við með aðgerðum sem snúa að samdrætti í heilsugæslu.
Stjórnendur HSS hafa fundað að undanförnu til að komast að niðurstöðu um hvar sé hægt að draga úr þjónustu svo minnstur skaði verði. Það þarf ekki að taka fram að að þessar umræður eru bæði erfiðar og sársaukafullar.
- Frá og með 10. júní var hraðmóttöku á heilsugæslu lokað en sú þjónusta naut mikilla vinsælda og létti mjög á annarri starfsemi heilsugæslu.
- Frá og með 16. júlí mun heilsugæsluvakt leggjast af utan dagvinnu. Sjúklingum verður vísað á læknavaktina í Reykjavík og á slysadeild LSH. Læknir verður á neyðarvakt á HSS og mun sinna neyðartilvikum. Ef neyðartilfellli ber að höndum á að hringja strax í 112, sem hefur samband við lækni á neyðarvakt.
Ljóst er að grípa verður til fleiri aðgerða á næstunni. Vonast er til að ráðuneytið geti brugðist fljótlega við þessari erfiðu fjárhagsstöðu og fjárhagsgrunnur stofnunarinnar verði leiðréttur svo koma megi í veg fyrir erfiðleika af svipuðu tagi í framtíðinni.
Athugasemdir
Ferlegt ástand segji nú ekki annað. Eins gott að það komi ekki upp alvarleg tilfelli segji ég. En svona er lífið eilíft streð við kjörin.
Knús á þig mín kæra.
JEG, 5.7.2008 kl. 22:08
Langaði bara að senda þér kveðju og knús og það er rétt þetta er ömurlegt ástand og á ekki að eiga sér stað í okkar nútímaþjóðfélagi í dag,en svona er þetta nú samt...kærleikskveðja
Björk töffari (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 00:51
Ekki er þetta gott ástand.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 6.7.2008 kl. 13:16
Sæl Adda mín.
Ég heyrði þessar fréttir. Þetta er ömurlegt og á sama tíma voru nægir peningar til þegar Paul Ramses Oduor var fluttur frá Íslandi í fylgd fjögra lögregluþjóna.
Þetta getur ekki gengið svona lengur að það sé verið að spara og spara í heilbrigðisgeiranum á sama tíma og það er eytt miklum fjármunum í að komast í Öryggisráðið. Heimsótt eru lönd víðs vegar um heim, mörg þeirra eru einræðisríki og illa farið með íbúa þessa ríkja. Þegar Kínverjar réðust á Tíbeta í vetur sátu íslensk stjórnvöld hjá og kom ekki bofs frá þeim í von um að Kínverjar kjósi Ísland í Öryggisráðið. Þvílík steypa.
Guð blessi þig og þína.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 7.7.2008 kl. 00:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.