Birnir Orri Pétursson og Lucia Celesta Molina Sierra krefjast 3,5 milljóna króna í miskabætur í meiðyrðamáli sínu gegn umsjónar- og ábyrgðarmönnum Kastljóss.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Birnir og Lucia eru sonur og tengdadóttir Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra. Þau stefndu Páli Magnússyni útvarpsstjóra, Þórhalli Gunnarssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigmari Guðmundssyni og Helga Seljan vegna umfjöllunar Kastljóss um óvenju greiða afgreiðslu á íslenskum ríkisborgararétti Luciu. Björn og Lucia telja umfjöllun þáttarins hafa verið ærumeiðandi og brot á friðhelgi einkalífs þeirra.
Hin stefndu kröfðust öll sýknu.
Fréttablaðið fjallar um málið í dag: Birnir og Lucia sögðu að umfjöllunin hefði komið illa við þau persónulega og Birnir taldi hana hafa verið óvandaða. Ég átti bágt með að trúa þessu. Ég hélt að þetta væri misskilningur sem yrði leiðréttur, sagði hann. Þetta var eins og herför gegn mömmu minni og hafði brag æsifréttamennsku. Ég var sár að fjölskyldan mín fengi klíkustimpil á sig - eins og hún væri hafin yfir lögin.
Umfjöllunin kom illa við Luciu. Við tókum þetta óskaplega nærri okkur. Mér fannst óþægilegt að það væri strax ljóst að þetta væri ég. Mér fannst þeir nota mig til að ná til Jónínu. Ég missti vinnu vegna þessa því margir trúðu umfjölluninni. Ég fann fyrir tortryggni frá fólki, sagði hún.
Kastljóssmenn lögðu hins vegar áherslu á það í dóminum að umfjöllunin hefði ekki beinst að persónu Luciu, heldur að vinnubrögðum stjórnmálamanna. Við vorum ekki að fjalla um Luciu og Birni, heldur um meðferð valds og veitingu ríkisborgararéttar sem er ákaflega heilagur réttur. Þetta snerist um það hvernig stjórnmálamenn og embættismenn fara með vald sitt, sagði Sigmar Guðmundsson. Fréttamennirnir vísuðu á bug ásökunum um að málið hefði átt sér pólitískar rætur. Það er fjarstæðukennt, sagði Helgi Seljan.
Athugasemdir
Þetta ofursnobbaða framsóknarpakk ætti að skammast sín. Hún fékk ríkisborgararétt ekki til að búa hér á landi, heldur til að komast í skóla á Englandi. Það er ekki bara verið að misbjóða fólki heldur er verið að misnota kerfið. 3,5 milljónir nægja til að borga skólagjöldin fyrir þau bæði þarna úti.
Loopman, 13.6.2008 kl. 14:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.